Quantcast
Channel: Hakkréttir – Ljúfmeti og lekkerheit
Viewing all articles
Browse latest Browse all 54

Ofnbakaðar kjötbollur

$
0
0

Ég held að það sé óhætt að segja að við höfum smitast af kjötbolludálætinu þegar við bjuggum í Svíþjóð. Okkur þykja þær svo góðar og sérstaklega heimagerðar með alvöru kartöflumús, rjómasósu og sultu.  Við erum þó alls ekki fín með okkur í þessum málum og kjötfarsbollur eru alltaf velkomnar á diskana okkar. Því verður þó ekki neitað að alvöru heimagerðar kjötbollur eru í algjöru uppáhaldi.

Ef ég ætla að slá í gegn hjá fjölskyldunni þá elda ég þessar kjötbollur. Þær eru svo dásamlega góðar og það er lygilega einfalt að búa þær til. Mér þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og frysta helminginn. Það er svo góð tilfinning af vita af svona fjársjóði í frystinum sem hægt er að grípa til þegar lítill tími gefst fyrir eldamennsku. Þá læt ég þær frosnar í 175° heitan ofn og leyfi þeim að dvelja þar á meðan kartöflurnar sjóða.

Ég gaf uppskriftina í Fréttablaðinu 6. október sl. en hún þolir vel að vera líka birt hér.

Ofnbakaðar kjötbollur

  • 450 g nautahakk
  • 2 egg
  • 1/2 bolli mjólk
  • 1/2 bolli rifinn parmesanostur
  • 1 bolli brauðmylsna
  • 1 lítill laukur, hakkaður smátt eða maukaður með töfrasprota
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 1/2 tsk oreganó
  • 1 tsk salt
  • nýmalaður pipar
  • 1/4 bolli hökkuð fersk basilika eða 1/2 msk þurrkuð

Hrærið eggjum og mjólk saman og setjið brauðmylsnuna út í. Setjið öll hráefnin saman í skál og bætið eggjablöndunni við. Blandið öllu vel saman með höndunum eða með hnoðaranum á hrærivél. Mótið bollur og raðið á smjörpappírsklædda bökunarplötu.

Bakið við 180° í ca 30 mínútur eða þar til bollurnar eru eldaðar í gegn og komnar með fallega húð.



Viewing all articles
Browse latest Browse all 54